Vantar örlítið upp á hjá Haraldi

Haraldur Franklín Magnús þarf ekki að pakka golfsettinu niður til …
Haraldur Franklín Magnús þarf ekki að pakka golfsettinu niður til langferðar að þessu sinni því næsta mót verður einnig í Girona. mbl.is/Kristinn Magnússon

GR-ingurinn Haraldur Franklín Magnús lauk leik á samtals þrettán höggum undir pari á Emporda Challenge mótinu í Girona á Spáni í dag. 

Afar góð frammistaða hjá Haraldi en dugði þó ekki nema í 10.-13. sæti sem gefur ef til vill einhverja mynd af styrk kylfinganna á Áskorendamótaröð Evrópu, sem er sú næststerkasta í álfunni. 

Haraldur lék lokahringinn í dag á 68 höggum eða á þremur höggum undir pari vallarins. Hringina fjóra lék hann á 68, 71, 64 og 68 höggum. Í dag fékk Haraldur þrjá fugla, einn örn, tvo skolla og tólf pör. Hann fékk tvo erni í mótinu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson tók einnig þátt í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir að hafa leikið á 73 og 73. 

Eitt mót er eftir þar til kemur að lokamótinu á Áskorendamótaröðinni og verður í vikunni á sama golfsvæði í Girona. 45 efstu kylfingarnir á stigalista mótaraðarinnar á árinu fá keppnisrétt á lokamótinu sem verður á Mallorka í nóvember. 

Haraldur var í 50. sæti fyrir mótið sem lauk í Girona í dag. Samkvæmt spálíkani á heimasíðu Evrópumótaraðarinnar virðist Haraldur vera í 46. sæti á listanum eftir mótið. Hann er því alveg á mörkunum að komast á lokamótið og þarf því að komast í gegnum niðurskurð keppenda í vikunni. 

Til mikils er að vinna á mótaröðinni því hún er eins konar b-deild fyrir Evrópumótaröðina sem er sú næst sterkasta í heimi á eftir PGA-mótaröðinni amerísku. 20 efstu kylfingarnir á stigalistanum í lok ársins fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. 

Hjá körlunum er Birgir Leifur Hafþórsson eini Íslendingurinn sem hefur verið með  keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka