Haraldur missir naumlega af lokamótinu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Arnþór Birkisson

Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur missir naumlega af lokamótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í golfi. 

Haraldur er á þremur yfir pari eftir 36 holur á næstsíðasta mótinu á Girona á Spáni eftir að hafa leikið á 75 höggum í morgun. Haraldur var á 70 höggum í gær, einu undir pari vallarins. Því er spáð að kylfingar sem eru á höggi yfir pari og betur eftir tvo hringi komist áfram. 

Áttunda brautin fór illa hjá Haraldi í dag en þessa par 5-braut lék hann á átta höggum. 

Haraldur var í 46. sæti stigalistans fyrir mótið en 45 efstu komast á lokamótið. Fyrst hann fer ekki í gegnum niðurskurðinn í mótinu mun hann ekki hækka á stigalistanum. 20 efstu á stigalistanum í lok tímabilsins komast á Evrópumótaröðina á næsta ári. 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson kemst hins vegar í gegnum niðurskurðinn. Hann lék einnig á 70 höggum í gær og gerði slíkt hið sama í dag. Er því á tveimur undir pari samanlagt og er í 23.-30. sæti sem stendur. 

Guðmundur var í 84. sæti stigalistans fyrir mótið á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert