Haukur Örn Birgisson gefur ekki kost á sér til endurkjörs sem forseti Golfsambands Íslands þegar þing sambandsins verður haldið 20. nóvember.
Haukur hefur gegnt formennsku í átta ár en segir í tilkynningu að hann hafi starfað fyrir GSÍ í tvo áratugi. Fyrst sem starfsmaður, síðar stjórnarmaður í sextán ár og formaður í átta ár.
„Ég er afar stoltur af þeirri vinnu sem ég, stjórnir sambandsins og starfsfólk höfum skilað af okkur á þessum tveimur áratugum og ég veit að golfsambandið er á góðum stað í dag. Golfíþróttin hefur aldrei staðið styrkari fótum og hvert sem litið er, þá nýtur íþróttin sögulegrar velgengni. Mér finnst þetta því vera góður tímapunktur til að láta af störfum og fela nýjum aðilum verkefnið. Ég hlakka til að fylgjast með íþróttinni dafna af hliðarlínunni,“ segir Haukur Örn meðal annars í tilkynningu.
Haukur Örn er jafnframt forseti Evrópska golfsambandsins en kjörtímabil hans þar rennur út seint á þessu ári.