Guðrún á leið til Sádi-Arabíu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Lokaspretturinn er framundan á keppnistímabilinu hjá Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, atvinnukylfingi úr Keili, á Evrópumótaröðinni í golfi. 

Guðrún Brá hefur sannað sig á mótaröðinni með spilamennsku sinni og er í 78. sæti á stigalistanum eftir að hafa tekið þátt í þrettán mótum á árinu. Guðrún er í raun enn ofar á lista þeirra sem keppa eingöngu á Evrópumótaröðinni. Kylfingar á LPGA-mótaröðinni í Bandaríkjunum fá mörg stig á báðum mótaröðum fyrir góðan árangur á risamótunum fimm í íþróttinni. Fyrir vikið eru kylfingar á LPGA einnig inni á stigalistanum á Evrópumótaröðinni. 

Sjötíu og tvær efstu á listanum fá keppnisrétt á lokamótinu sem fram fer á Spáni. Sextíu efstu á stigalistanum í loka keppnistímabilsins fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári en þær sem verða í sætum 61 - 80 ættu einnig að vera í góðum málum og með keppnisrétt á mörgum mótum á næsta ári. 

„Ég hef bara verið að spila ágætlega og ætla að reyna að halda því áfram. Það er lítið eftir af keppnistímabilinu og ég er í 78. sæti núna sem er nóg.  En það væri rosalega gott að standa sig vel á síðustu mótunum til að vera á góðum stað á listanum. Það er markmiðið án þess að setja massa pressu á sjálfan sig. Til þessa er þetta besta keppnistímabilið mitt,“ sagði Guðrún þegar mbl.is ræddi við hana. 

Aðrar reglur varðandi klæðaburð

Á lokakaflanum mun Guðrún keppa í tveimur mótum í Sádi-Arabíu. Annað mótið verður liðakeppni en hitt verður hefðbundnara. Mun hún hefja leik á Royal Greens Golf og Country Club í Sádi-Arabíu hinn 4. nóvember. Lokamótið verður á Costa Del Sol og hefst 25. nóvember. Í öllum þessum mótum er hærra verðlaunafé en gengur og gerist á mótaröðinni. 

Það gerist ekki á hverjum degi að íslenskt íþróttafólk keppi í Sádi-Arabíu en Guðrún Brá keppti þar einnig á sama móti í fyrra. 

„Þetta er ákveðið menningarsjokk en ég fékk ekki að upplifa það almennilega í fyrra út af Covid. Þá voru rosalega strangar reglur. Pabbi [Björgvin Sigurbergsson] fór með mér og við gistum á flottu hóteli rétt hjá golfvellinum. Okkur var í raun skutlað til og frá hótelinu. Til og frá flugvellinum og til og frá golfvellinum. Annars þurfti maður að vera á hótelinu og í hálfgerðu stofufangelsi í tvær vikur.

En maður sá strax margt sem er allt öðruvísi en það sem maður á að venjast. Á hótelinu var til dæmis sér líkamsrækt fyrir konur og sér líkamsrækt fyrir karla. Ég náði að sjá eitthvað en fékk ekki almennilega upplifun af Sádi-Arabíu,“ sagði Guðrún þegar mbl.is spurði hana útí þetta. 

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/LET

Í hlýju loftslagi keppa konur á mótaröðunum í golfi oft í pilsi eða stuttbuxum og léttum bol, til dæmis hlýrabol. Einnig þegar þær spila æfingahringina í miklum hita. Slíkt er ekki inni í myndinni í Sádi-Arabíu. 

„Það má ekki sjást í hné eða axlir og það eru því aðrar reglur varðandi klæðaburð í þessum mótum.  Við þurfum því að vera í síðbuxum og í bol með ermum. Alla vega ekki í hlýrabol. En við þurfum ekki að vera með búrku eða neitt svoleiðis. Auðvitað verður maður bara að fara eftir reglum í landinu sem maður heimsækir sem íþróttamaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert