Skrautlegt skorkort hjá Guðrúnu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/GSÍ

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, átti fremur erfiðan dag á skrifstofunni í dag þegar hún lék annan hringinn á Aramco Saudi Ladies mótinu í Sádí Arabíu. 

Guðrún lék á 76 höggum og var á fjórum höggum yfir pari. Hún lék á parinu í gær og er á samtals fjórum yfir pari. Of snemmt er að fullyrða um hvort Guðrún komist áfram eftir tvo hringi og spili seinni tvo hringi. 

Útlit er fyrir að keppendafjöldinn verði skorinn niður við þrjú högg yfir pari og Guðrún komist því ekki áfram. Það liggur hins vegar ekki fyrir og keppni á öðrum keppnisdegi hefur verið frestað þar sem ekki náðu allir að ljúka leik fyrir myrkur.

Spilamennska Guðrúnar á golfvellinum er oftar en ekki stöðug en skorið var í skrautlegri kantinum í dag á hennar mælikvarða. Fékk hún fjóra fugla og virðist því hafa verið sókndjörf en fékk á hinn bóginn sex skolla og einn skramba. 

Guðrún Brá mun leika í öðru móti á Sádí Arabíu en eftir það verður einungis lokamótið á Evrópumótaröðinni eftir en það verður á Spáni seint í nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert