Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr Keili í Hafnarfirði, lék vel á Evrópumótaröðinni í golfi í dag en þá hófst síðara mótið sem haldið er í Saudi Arabíu.
Guðrún lék þar einnig í síðustu viku en þá komst hún ekki í gegnum niðurskurð keppenda. Guðrún Brá lék á 70 höggum í dag og var á tveimur undir pari vallarins á Royal Greens Golf & Country Club.
Guðrún hóf leik á 10. teig og var á parinu á fyrri níu holunum. Fékk þá tvo fugla en einnig tvo skolla. Á síðari níu holunum í dag lék hún mjög vel (holur 1 til 9 á vellinum) og fékk þá sjö pör og tvo fugla. Var á 34 höggum á þeim hluta vallarins.
Guðrún Brá er sem stendur jöfn ásamt fleirum í 26. sæti. Mótið er óvenjulegt að því leytinu til að meðfram einstaklingskeppninni er einnig keppt í liðakeppni.
Þar eru fjórir leikmenn saman í liði og telja tvö bestu skorin á hverri holu í liðakeppninni. Guðrún Brá er í Team Weaver en liðið er í toppbaráttunni eftir fyrsta keppnisdaginn á -17 samtals samkvæmt frétt á golf.is.