Hulda Bjarnadóttir verður sjálfkjörin nýr forseti Golfsambands Íslands á Golfþingi sem fer fram 19. og 20. nóvember á Fosshóteli í Reykjavík. Hulda segir verkefnin sem fylgi nýrri stöðu mörg og ærin en að hún og aðrir meðlimir nýrrar stjórnar sambandsins séu fullir tilhlökkunar.
„Ástæðan fyrir því að ég vildi gefa kost á mér er að ég vildi fylgja eftir stefnu sambandsins. Þetta eru auðvitað nokkur verkefni því þetta er svo breið fylking, þetta er stór og mikil hreyfing með alls konar haghafa og áherslur sem við þurfum að fylgja eftir.
Það skiptir máli að við getum fylgt stefnunni úr hlaði og innleitt hana almennilega. Hún gildir til 2027 og við erum með stór og mikil markmið þar,“ sagði Hulda í samtali við mbl.is.
Hún fór yfir þann fjölda verkefna sem nú fara í hönd.
„Ef ég segi aðeins frá því þá erum við að setja mjög metnaðarfulla stefnu varðandi Íslandsmótin okkar, við viljum framkvæma þau mjög vel. Við vorum með 18 mót á dagskrá í ár og viljum framkvæma þau enn betur. Við erum að skýra hlutverk okkar og klúbbanna og viljum vera mjög metnaðarfull þarna.
Svo erum við líka gríðarlega metnaðarfull í landsliðsverkefnunum. Við ætlum að stefna að því að lið og einstaklingar í öllum aldurshópum, sem keppa fyrir hönd Íslands, verði á verðlaunapalli í alþjóðlegum golfmótum áhugamanna,“ sagði Hulda.
Iðkendum í golfi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum á Íslandi. Hulda sagði gagngert stefnt að því að fjölga konum í íþróttinni en einnig börnum og unglingum.
„Í útbreiðslunni erum við mjög metnaðarfull þegar kemur að því að ná inn fleiri ungum konum. Við erum búin að setja okkur mjög skýr markmið þar. Við ætlum að ná konum úr 33 prósentum í 40 prósent af allri hreyfingunni og höfum núna til þess sex ár.
Við erum alveg á góðri leið með það en við þurfum samt að halda skýrum fókus, þ.e. að fjölga ekki bara í hreyfingunni heldur að vera nokkuð markviss með hvar við fjölgum í henni, hverja við hvetjum sérstaklega til þess að koma til liðs við okkur.
Svo eru það börnin og unglingar, þar sem við stefnum á að fara úr 13 í 20 prósent. Við erum að breyta ásýnd golfsins mjög mikið með því að vera að fara mjög markvisst í þessa átt. Þetta er kannski ekki mjög róttækt en ef þú berð þetta saman við hreyfinguna fyrir 20 árum þá er þetta mjög róttækt.“
Hún sagði það einnig mikilvægt að líta til lýðheilsuþátta þar sem sambandið vilji kynna ríkinu og sveitarfélögum jákvæð áhrif golfiðkunar á forvarnir, heilsueflingu og geðrækt.
„Stóra myndin lýtur líka að lýðheilsunni. Við þurfum að eiga mikið og gott samtal við ríkið og sveitarfélögin um lýðheilsumálin og hversu öflug forvörn íþróttin er.
Við þurfum að hvetja klúbbana líka til þess að setja þetta markvisst á oddinn. Þá erum við að hugsa til fjölskyldna, ungmenna og eldri borgara en líka að ríkið og sveitarfélögin skilji að við þurfum meira land, enda gengur golf út á það að spila á stóru landsvæði.
Það er orðið svolítið uppselt á sumum stöðum á meðan það er nægt rými annars staðar. Við þurfum að fjölga markvisst þar. Ný stjórn hefur auðvitað það verkefni að tryggja að það verði áframhaldandi uppgangur í íþróttinni og hluti af því er akkúrat þetta,“ útskýrði Hulda.
Þá er ógetið markmiða sem tengjast umhverfismálum, sem snúa til dæmis að Parísarsamkomulaginu þar sem má finna tiltekin heimsmarkmið í þeim málum.
„Ég hef verið metnaðarfull fyrir því, og setti það á dagskrá til þess að styðja við stefnuna enn meira, að styðja við heimsmarkmiðin og sjálfbærnina.
Fólk kannski tengir ekki alveg við það strax af því að við erum ennþá að fræða þegar kemur að því að vera með mælanlega kvarða. Að við getum tekið utan um kolefnissporið okkar alveg til 2030.“ sagði hún.
Hulda sagði það mikilvægt að allir taki ábyrgðina svolítið til sín og að það eigi einnig við þegar kemur að félagslegum þáttum.
„Eru klúbbarnir með viðbragðsáætlanir? Þær hafa verið í umræðunni undanfarið. Hversu vandað starfið er, hvað er búið að setja á pappír og hversu meðvitaðar stjórnir klúbbanna eru um að taka alla þessa þætti inn í starfsemina. Hvort það sé búið að tryggja gæðastarf og náttúrlega öryggi iðkenda og annað eins.
Það er auðvitað farið yfir vítt og breitt svið í þessari heimsmarkmiðanálgun en þetta snýst aðallega um að fá mælanlegri kvarða, ekki bara að tala um að gera eitthvað heldur fá það á hreint hverjir mælanlegu kvarðarnir okkar eru. Við erum núna að gera samning við Klappir um að við tökum þetta mjög markvisst áfram.
Við ætlum að mæla okkar áhrif fram til 2030. Það var það sem ég bætti við í útfærslu á stefnumálum því ég held að þetta muni bara styrkja okkur í samtalinu við sveitarfélögin, sem við verðum auðvitað að vera í góðu sambandi við,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.
Sjálfbærniverðlaun GSÍ verða veitt í fyrsta sinn á Golfþinginu um helgina.