Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili virðist vera að komast áfram á mótinu í Kenía á Evrópumótaröðinni þrátt fyrir allt.
Guðrún lauk öðrum hringnum snemma í morgun og þá var ekki útlit fyrir að hún kæmist áfram eftir að hafa leikið á 77 og 78 höggum.
Niðurskurðarlínan hefur hins vegar færst mjög til eftir því sem liðið hefur á daginn og Guðrún er nú jöfn fleirum í 58. sæti. Hún kemst því væntanlega áfram en örfáir kylfingar eiga eftir að ljúka leik.
Skorið í mótinu er mjög hátt og völlurinn er því væntanlega erfiður viðureignar. Allir kylfingarnir eru yfir pari samtals eftir 36 holur fyrir utan tvo efstu.
Guðrún hefur því ekki sagt sitt síðasta orð í Kenía og leikur tvo hringi til viðbótar um helgina.
Uppfært:
Þegar allar hafa lokið öðrum hring er staðfest að Guðrún Brá er komin áfram í 57.-62. sæti á 11 höggum yfir pari.