Guðrún Brá Björgvinsdóttir atvinnukylfingur hefur lokið keppni á Magical Kenya Ladies Open golfmótinu sem nú stendur yfir í Kenía og er hluti af Evrópumótaröð kvenna í golfi.
Guðrún Brá lék í dag annan hringinn á mótinu á 78 höggum, sex yfir pari vallarins, en hún lék í gær á 77 höggum, fimm yfir pari.
Hún er því samtals á ellefu höggum yfir pari og ljóst að hún kemst ekki í gegnum niðurskurðinn í dag því sem stendur er niðurskurðarlínan miðuð við sjö högg undir pari. Hún er í 78.-81. sæti af 94 keppendum en um það bil 65 þeirra komast áfram og leika tvo síðari hringina um helgina.
Linnea Ström frá Svíþjóð er efst sem stendur á þremur höggum undir pari en hún hefur leikið 15 holur af 18 í dag. Emma Grechi frá Frakklandi er önnur á tveimur höggum undir pari en hún hefur ekki hafið leik í dag.
Næsta mót á mótaröðinni fer fram í Sádi-Arabíu 17.-20. mars og Guðrún Brá verður þar á meðal keppenda en næstu tvær helgar þar á eftir keppir hún á ný í Suður-Afríku.