Eitt yfir pari í Höfðaborg

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. Ljósmynd/IGTTour

Haraldur Franklín Magnús atvinnukylfingur úr GR lék fyrsta hringinn á Opna Höfðaborgarmótinu í golfi í dag á einu höggi yfir pari vallarins.

Leikið er á Royal Cape vellinum í Höfðaborg í Suður-Afríku en mótið er liður í Áskorendamótaröð Evrópu og er annað mót tímabilsins.

Skor keppenda var gott í dag þannig að Haraldur er aftarlega í röðinni en hann deilir 120.-146. sæti af 216 keppendum á mótinu. Hann fékk þrjá fugla og fjóra skolla á hringnum.

Efstir eru þeir Christofer Blomstrand frá Svíþjóð og Ivan Cantero frá Spáni sem léku á sjö höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert