Bandaríski kylfingurinn Dustin Johnson hefur sagt upp aðild sinni að PGA-mótaröðinni svo honum sé unnt að taka þátt í LIV-mótaröðinni umdeildu, sem er fjármögnuð af sádi-arabískum yfirvöldum.
Johnson, sem er 37 ára gamall, var um langt skeið efstur á heimslistanum yfir bestu kylfingana, alls 135 vikur, og hefur unnið tvö af stærstu mótum golfíþróttarinnar; Opna bandaríska meistaramótið árið 2016 og Masters-mótið árið 2020.
Bæði árin var hann valinn besti leikmaður PGA-mótaraðarinnar. Nú mun hann hins vegar ekki taka þátt á fleiri mótum á vegum mótaraðarinnar.
„Ég vil ekki spila út ævina og þetta gefur mér tækifæri til þess að gera það sem ég vil gera,“ sagði Johnson á blaðamannafundi í dag.
Vann hann sér inn keppnisrétt á PGA-mótaröðinni árið 2008 og hefur á ferlinum sankað að sér 74 milljónum dollara í verðlaunafé.
Samkvæmt frétt BBC Sport í dag mun Johnson hins vegar fá greiddar 150 milljónir dollara fyrir það eitt að taka þátt á LIV-mótaröðinni. Hefst hún næstkomandi fimmtudag í Lundúnum.
Með því að segja upp aðild sinni að PGA-mótaröðinni fyrirgerir Johnson um leið rétti sínum til þess að keppa fyrir hönd Bandaríkjanna í Ryder-bikarnum. Fimm sinnum hefur hann tekið þátt í bikarnum þar sem Bandaríkin reyndust hlutskörpust í tvígang.
„Ryder-bikarinn er ótrúlegur og hefur haft mikla þýðingu fyrir mig en þegar allt kom til alls ákvað ég að þetta væri best fyrir mig og fjölskyldu mína.
Allt er breytingum háð og vonandi breytist þetta einn daginn og ég get fengið tækifæri til þess að taka aftur þátt þar,“ sagði Johnson um bikarinn.