Ástralinn Cameron Smith fagnaði sínum fyrsta sigri á risamóti í golfi er hann bar sigur úr býtum á Opna mótinu á Gamla vellinum í St. Andrews í Skotlandi í dag. Hann varð í leiðinni fjórði Ástralinn til að fagna sigri á mótinu.
Smith vann eftir harða baráttu við Bandaríkjamanninn Cameron Young og Norður-Írann Rory McIlroy en hann lék hringina fjóra á samanlagt 20 höggum undir pari, einu höggi betur en Young og tveimur betur en McIlroy.
Smith átti gríðarlega góðan lokahring því hann lék á 64 höggum, átta höggum undir pari. Young lék á sjö höggum undir pari í dag og McIlroy á tveimur höggum undir pari en hann var í forystu ásamt Norðmanninum Viktori Hovland fyrir lokadaginn í dag en Hovland náði sér ekki á strik og lék á tveimur höggum yfir pari.
Smith, sem er 28 ára, hefur verið nálægt sigrum á risamótum áður því hann varð í öðru sæti á Masters-mótinu árið 2020 og þriðja sæti á mótinu í ár. Sigurinn kemur því ekki endilega á óvart, þrátt fyrir að um fyrsta sigur á risamóti sé að ræða.