Sænski kylfingurinn Henrik Stenson hefur verið rekinn sem fyrirliði Evrópuliðsins fyrir Ryder-bikarinn í golfi, þar sem hann hefur ákveðið að taka þátt í LIV-mótaröðinni sem yfirvöld í Sádi-Arabíu fjármagna.
Stenson, sem var valinn besti kylfingur ársins árið 2016 er hann vann sinn eina risasigur á Opna mótinu, hefur fimm sinnum leikið með Evrópu í Ryder-bikarnum og var hann gerður að fyrirliða í mars síðastliðinn.
LIV-mótaröðin hefur valdið fjaðrafoki í golfheiminum en þar eru verðlaunaupphæðir mun hærri en á öðrum mótaröðum. Talið er að stjórnvöld í Sádi-Arabíu séu að fjármagna mótaröðina til að fegra land og þjóð í skugga mannréttindabrota.
Kylfingar eins og Phil Mickelson, Bryson DeChambeau, Dustin Johnsonn, Sergio Garcia, Lee Westwood og Brooks Koepka eru á meðal kylfinga sem hafa fært sig yfir á LIV-mótaröðina umdeildu.