Loksins skilar þolinmæðin einhverju

Íslandsmeistarinn Kristján Þór Einarsson.
Íslandsmeistarinn Kristján Þór Einarsson. Ljósmynd/seth@golf.is

Kristján Þór Einarsson var að vonum sáttur þegar mbl.is talaði við hann eftir að ljóst var að hann væri Íslandsmeistari karla í golfi en lokaumferðin var felld niður út af veðuraðstæðum.

Ekki endirinn á mótinu sem búast mátti við en Íslandsmeistaratitill engu að síður. Hvað er efst í huganum eftir mótið?

„Ekkert nema bara þakklæti. Það er bara það sem ég get sagt. Þakklæti til allra sem eru í kringum mig.“

Óháð deginum í dag, þá var veðrið búið að vera upp og ofan. Hvernig fannst þér þú tækla það?

Ég byrjaði í undirbúningi á mánudagsmorgun. Á mánudag og þriðjudag var völlurinn mjög góður, svipaður og hann var á laugardaginn. Aðfaranótt miðvikudags byrjar að blása hressilega og mikill vindur þarna á miðvikudeginum. Þegar við förum að spila á miðvikudeginum þá er völlurinn búinn að þorna rosalega mikið upp og í rauninni orðinn allt öðruvísi en hann var dagana á undan.

Hann hélt sér þannig fimmtudag og föstudag, mjög harður og hraður. Það var erfitt að átta sig á hvernig boltinn myndi haga sér þegar maður var að vippa inn á flatirnar. Svo var smá rigning þarna aðfaranótt laugardags og maður fann það alveg strax að þetta var orðið líkara því sem maður var að æfa sig fyrir á mánudeginum. Völlurinn var orðinn mýkri og flatirnar tóku mikið betur við boltanum.

Hvað finnst þér að hafi verið þinn sterkasti þáttur í mótinu?

Þolinmæði myndi ég segja. Þrátt fyrir að maður var að spila mjög gott golf fyrstu tvo dagana þá var einhvern veginn ekkert að falla með manni. Ætli þolinmæðin hafi bara ekki loksins komið að góðum notum. Svo byrjaði tannhjólið að rúlla hægt og rólega í gær. Já, eina sem maður getur sagt. Loksins er þolinmæðin að skila einhverju.

Hvað tekur við núna?

„Það er bara vinnan í fyrramálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert