Perla Sól valin í úrvalslið Evrópu

Íslandsmeistarinn Perla sól.
Íslandsmeistarinn Perla sól. Ljósmynd/Seth@golf.is

Perla Sól Sigurbrandsdóttir var valin í úrvalslið meginlands Evrópu sem keppir í Junior Vagliano liðakeppninni 2022.

Perla Sól er 15 ára og er nýkringdur Íslandsmeistari í kvenna flokki. Fyrr í sumar varð hún einnig Evrópumeistari í flokki 16 ára og yngri og varð fyrsti Íslendingurinn til þess að ná þeim árangri í stúlknaflokki.

Mótið er árlegur viðburður þar sem að úrvalslið kvenna 16 ára og yngri keppa sín á milli og eru aðeins kylfingar í fremstu röð á heimsvísu valdir í þetta mót.

Með Perlu Sól í liðinu eru  Johanna Axelsen (Danmörk), Anna Cañadó (Spánn), Andrea Revuelta (Spánn) og Carla De Troia (Frakkland). Sigurvegarinn úr R&A áhugamannamótinu í stúlknaflokki fær einnig sæti í liðinu en mótið hófst í dag.

Liðsfélagar Perlu hafa líkt og hún ekki keppt á þessu móti áður en úrvalslið Evrópu hefur ávallt sigrað á þessu móti í þau sex skipti sem það hefur farið fram.

Perla Sól og félagar munu keppa gegn úrvalsliði Bretlands og Írlands. Mótið fer fram 26.-27. ágúst á Blairgowrie golfvellinum í Skotlandi. Keppnisfyrirkomulagið er með svipuðu sniði og í Solheimbikarnum og Ryderbikarnum í karlaflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka