Ragnhildur Kristinsdóttir lék fyrsta hringinn á úrtökumóti fyrir LPGA-mótaröðina í golfi í Kaliforníu á pari, en mótaröðin er sú sterkasta í heimi. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er eini Íslendingurinn sem hefur fengið keppnisrétt á LPGA.
Ragnhildur lék fyrsta hringinn á 72 höggum en hún fékk fimm fugla, fimm skolla og átta pör. Alls hófu 311 keppendur leik á 1. stigi úrtökumótsins, en stigin eru þrjú. Eftir þriðja keppnisdag er skorið niður og um 130 efstu kylfingarnir fara áfram.
Eftir fyrsta hring er Ragnhildur í 102. sæti og því í ágætum málum þegar kemur að niðurskurðinum.