Birgir Leifur Hafþórsson, fyrrverandi atvinnukylfingur, sýndi að hann hefur engu gleymt er hann lék á nýju vallarmeti á teigum 54 á Leirdalsvelli á Opna Ecco-minningarmóti GKG síðastliðinn laugardag.
Birgir Leifur lék hringinn á aðeins 62 höggum, níu undir pari vallarins.
Opna Ecco minningarmót GKG er haldið árlega til styrktar barna-, unglinga-, og afreksstarfi klúbbsins og lauk á laugardaginn. Afar góð þátttaka var í mótinu þar sem 152 kylfingar luku keppni.
Keppt var í karla- og kvennaflokki í punktakeppni. Einnig voru veitt verðlaun fyrir besta skor án forgjafar í karla- og kvennaflokki. Leikið var inn á nýju 18. flötina í mótinu og þótti hún koma vel út að því er kemur fram í tilkynningu frá GKG.