Bjarki Pétursson, atvinnukylfingur, úr GKG, komst áfram á annað stig úrtökumóts fyrir Evrópumótaröðina í golfi.
Bjarki hafnaði í 7.-8. sæti á fyrsta stigi úrtökumóts, sem lauk í Austurríki um helgina en 12 efstu keppendurnir komust áfram á annað stigið. Bjarki lék prýðilegt golf á mótinu. Hann var á pari á fyrsta hring á miðvikudag en komst á gott flug eftir frábæran örn snemma á öðrum hring á fimmtudag. Borgnesingurinn knái gerði fá mistök eftir það og tapaði ekki höggi síðustu tvo keppnisdagana.
Bjarki sagðist í samtali við mbl.is auðvitað vera virkilega ánægður með að vera kominn í gegnum fyrsta stigið.
„Ég er kominn skrefi nær mínum markmiðum. Ég var heilt yfir mjög góður í mótinu en púttin skiluðu ekki miklu. Ég er ekkert að láta það trufla mig því það gerir enn spenntari fyrir komandi vikum. Nú fæ ég tækifæri til að æfa mjög vel og koma flugbeittur á annað stigið í nóvember“.
Bjarki sagði að örninn sem hann nældi í snemma á öðrum keppnisdegi hafi heldur betur kveikt á sér.
„Ég hóf leik á 10. teig og fékk örninn á 14. holu, sem er að mínu mati með erfiðasta teighöggið á mótinu. Annað höggið, með 6 járni, fór næstum því í holu og þá vaknaði ég en ég var á 1 höggi yfir pari þegar ég steig upp á 14. teiginn. Mig langar að nota tækifærið og þakka mínum helstu samstarfsaðilum; GG Verk, Steypustöðinni og Titleist á Íslandi fyrir að standa með mér og styðja við bakið á mér. Án þeirra væri ég ekki á þessari spennandi vegferð“, segir Bjarki Pétursson, sem heldur nú til Íslands að hlaða batteríin áður en hann flýgur til Spánar þar sem hann mun æfa og undirbúa sig fyrir annað stig úrtökumótsins við bestu mögulegu aðstæður.
Félagar Bjarka, úr GKG, þeir Sigurður Arnar Garðarsson og Kristófer Orri Þórðarson voru einnig meðal keppenda á mótinu. Sigurður Arnar var einu höggi frá því að komast áfram og Kristófer Orri þremur höggum frá því að komast áfram á annað stigið.