Axel varð sjöundi í Svíþjóð

Axel Bóasson keppti í Svíþjóð og lauk keppni í dag.
Axel Bóasson keppti í Svíþjóð og lauk keppni í dag. Ljósmynd/Sigurdur Unnar Ragnarsson

Axel Bóasson atvinnukylfingur úr Keili lauk keppni á Mor­e­Golf Mastercard Tour Final mót­inu í Svíþjóð í dag og hafnaði í sjöunda sæti ásamt þremur öðrum kylfingum. 

Axel var í fjórða sætinu fyrir lokahringinn í dag og byrjaði á að fá örn þegar hann lék fyrstu holuna, par fimm, á þremur höggum. Hann var í baráttunni um efri sætin langt fram eftir hringnum en tapaði tveimur höggum á ellefu holu, sem hann lék á sjö höggum, tveimur yfir pari.

Lokaniðurstaðan var því sú að Axel lék hringinn á 72 höggum, pari vallarins. Hann hafði leikið tvo fyrstu dagana á 68 og 69 höggum og lauk því keppni á 209 höggum, sjö undir pari vallarins.

Danir röðuðu sér í fjögur efstu sæti mótsins og John Axelsen bar sigur úr býtum á 16 höggum undir pari, þremur höggum á undan Jeppe Kristian Andersen. Mótið er liður í Nordic Golf-mótaröðinni en Axel var í fimmtánda sætinu á stigalista hennar þegar keppni hófst í fyrradag. Fimm efstu eftir keppnistímabilið komast á Áskorendamótaröðina auk þess sem þeir sem vinna þrjú mót á tímabilinu ná þangað. Axel hefur unnið eitt mót til þessa í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert