Bjarki og Guðmundur áfram á lokastigið

Bjarki Pétursson.
Bjarki Pétursson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG komust áfram á lokastig úrtökumóts fyrir Evrópumótaröðina í golfi en öðru stigi úrtökumótsins lauk í gær. Haraldur Franklín Magnús úr GR er úr leik. Lokastigið hefst á föstudaginn á Spáni.

Bjarki lék frábært golf á fyrsta hring þegar hann tapaði ekki höggi og kom í hús á sjö höggum undir pari Isla Canela strandvallarins á Spáni. Hann fylgdi fyrsta hringnum vel eftir með því að leika hina þrjá hringina á fjórum höggum undir pari og lauk leik á 19 höggum undir pari, sem skilaði honum í 10.-11. sæti í mótinu.

Guðmundur Ágúst lék ekki eins vel á fyrsta degi en hann tapaði ekki mörgum höggum á mótinu og náði í mikilvæga erni á þriðja og fjórða hring. Guðmundur lauk leik á 17 höggum undir pari og hafnaði í 14.-17. sæti í mótinu.

Haraldur Franklín Magnús náði ekki sama stöðugleika og þeir Bjarki og Guðmundur. Hann lék vel á fyrsta og síðasta hring en á öðrum og þriðja hring var skorið ekki eins gott. Hann lauk leik á hringjunum fjórum á 11 höggum undir pari og hafnaði í 41.-44. sæti, fjórum höggum frá því að komast áfram á lokastigið.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert