Tiger snýr aftur

Tiger Woods, til vinstri, keppir á Hero World Challenge.
Tiger Woods, til vinstri, keppir á Hero World Challenge. AFP/Sam Greenwood

Tiger Woods snýr aftur á golfvöllinn í fyrsta skipti síðan í júlí er hann verður á meðal kylfinga á Hero World Challenge field-mótinu á Bahamaeyjum í næsta mánuði.

Woods tilkynnti á samfélagsmiðlum í dag að hann myndi keppa á mótinu, sem hann stendur sjálfur fyrir. Allur ágóði sem vinnst á mótinu fer í góðgerðarmál, en Tiger stofnaði mótið ásamt föður sínum árið 1999.

Keppni á mótinu fer fram frá 1. til 4. desember á Albany-vellinum, við Nassau á Bahamaeyjum.

Á meðal kylfinga sem taka þátt á mótinu eru Scottie Scheffler, Justin Thomas og Matt Fitzpatrick, en þeir unnu allir risamót á tímabilinu. Jon Rahm, Xander Schauffele, Collin Morikawa, Jordan Spieth, Viktor Hovland, Tony Finau og Max Homa taka einnig þátt.

Tiger tók óvænt þátt á Masters-mótinu í apríl, 14 mánuðum eftir að hann var heppinn að sleppa lifandi úr bílslysi. Þá keppti hann einnig á PGA-meistaramótinu, en náði sér ekki á strik. Voru meiðslin greinilega að angra Tiger, en þrátt fyrir það ætlar hann að taka þátt á eigin móti í desember.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert