Guðmundur Ágúst Kristjánsson tryggði sér í dag keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi á næsta ári. Guðmundur lék afar vel á lokaúrtökumóti fyrir mótaröðina á Spáni, en hann lék sjötta og síðasta hringinn í dag.
Lék hann hringinn á 70 höggum, einu höggi undir pari. Guðmundur lék hringina sex á samtals 18 höggum undir pari. Hann lék best á öðrum hring, eða á sjö höggum undir pari.
Kylfingarnir sem enda í 25 efstu sætunum tryggja sér þátttökurétt á mótaröðinni og er Guðmundur í 18. sæti. Nánast allir kylfingarnir fyrir neðan hann búnir að ljúka keppni og þeir sem eru eftir eiga ekki raunhæfan möguleika á að ná Guðmundi.
Hann er annar íslenski kylfingurinn sem afrekar það að fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á eftir Birgi Leifi Hafþórssyni, en Birgir náði áfanganum 2006 og 2007.