Guðrún Brá Björgvinsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi en fjórði hringur var leikinn á La Manga á Spáni í dag.
Guðrún Brá lék Norður-völlinn á 72 höggum eða á 1 höggi yfir pari og er samtals á 2 höggum yfir pari að loknum fjórum hringjum af fimm. Hún er sem stendur í 41.-49. sæti en efstu 60 kylfingarnir komast áfram á fimmta og síðasta hringinn.
Þeir tuttugu kylfingar sem ljúka leik á besta skorinu fá fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni, en Guðrún Brá hefur verið með þátttökurétt á mótaröðinni síðustu tvö ár. Guðrún er fjórum höggum frá þeim tuttugu efstu fyrir lokahringinn.
Þeir kylfingar sem hafna í sætum 21-50 fá takmarkaðan þátttökurétt og þeir kylfingar sem falla utan topp 50 fá þátttökurétt á einstaka mótum mótaraðarinnar.
Það verður spennandi að fylgjast með framgöngu Guðrúnar Brár á lokahringnum á morgun.