Tekur við kvennaliði FH í sumar

Ásgeir Jónsson og Árni Stefán Guðjónsson.
Ásgeir Jónsson og Árni Stefán Guðjónsson. Ljósmynd/FH

Árni Stefán Guðjónsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs FH í handknattleik til næstu þriggja ára. Tekur samningurinn gildi í sumar að loknu yfirstandandi tímabili.

Árni Stefán er reyndur þjálfari sem starfað hefur bæði í kvenna- og karlaboltanum undanfarin ár og er nú annar þjálfara U19-ára landsliðs kvenna.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá Árna Stefán til starfa á ný til FH, við þekkjum hann vel. Árni Stefán er algjör toppmaður og með mikinn metnað. Framtíðarsýn hans er einnig mjög skýr,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í tilkynningu frá deildinni.

„Við erum mjög ánægð með núverandi leikmannahóp, mikil reynsla í bland við ungar og efnilegar stelpur sem eru að stíga sín fyrstu skref. Við munum bæta við okkur leikmönnum í sumar og styrkja hópinn enn frekar.

Jafnframt er stór hópur stúlkna á leiðinni upp úr yngri flokka starfi okkar og framtíðin því björt hjá FH. Við hlökkum til samstarfsins við Árna Stefán, væntum mikils af honum og horfum björtum augum á næstu tímabil,“ bætti Ásgeir við.

Kvennalið FH er sem stendur um miðja næstefstu deild, Grill 66-deildina, með tíu stig eftir ellefu leiki, átta stigum á eftir Aftureldingu og ÍR í efstu tveimur sætunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert