Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék vel á öðrum hring á Thailand Classic-mótinu í Bangkok í Taílandi í nótt. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, þeirri næststerkustu í heimi.
Guðmundur Ágúst lék annan hringinn á samtals 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari vallarins.
Hann lék fyrsta hring sömuleiðis á 70 höggum og er því á fjórum höggum undir pari að loknum fyrstu tveimur hringjunum.
Guðmundur Ágúst fékk sjö fugla á öðrum hring, þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla og er sem stendur í 41.-58. sæti þegar um helmingur keppenda á eftir að klára annan hring sinn.
Spánverjinn Rafa Cabrera Bello er í efsta sæti þegar hann hefur lokið tveimur hringjum á þrettán höggum undir pari. Í öðru sæti er Fabrizio Zanotti á ellefu höggum undir pari.
Uppfært:
Guðmundur fór örugglega í gegnum niðurskurðinn og er í 42.-58. sæti fyrir þriðja hring mótsins.