Guðmundur Ágúst Kristjánsson hafnaði í 51.-56. sæti á Thailand Classic á Evrópumótaröðinni en mótinu lauk í morgun.
Hann lék hringina fjóra á samtals 282 höggum (70, 70, 72 og 70) eða á sex höggum undir pari Amata Spring-vallarins.
Þetta var sjötta mót Guðmundar á mótaröðinni síðan hann tryggði sig inn á hana í haust og annað mótið í röð þar sem hann komst í gegnum niðurskurðinn.
Vill ná enn betri árangri
Í stuttu spjalli við mbl.is sagði Guðmundur spilamennskuna hafa verið ágæta og megnið af hans leik ágætt eins og er.
„Ég þarf bara að vera betri á flötunum til að komast hærra upp töfluna.“
Guðmundur, sem komst inn á Evrópumótaröðina í haust, hefur nú komist í gegnum niðurskurðinn í tveimur mótum í röð.
Aðspurður hvort það auki ekki við sjálfstraustið segir hann það bara fínt en hann segist vilja meira.
Hann segir mjög mikilvægt að komast í einhverjar evrur en hann fékk rúmar 7.000 evrur í sinn hlut fyrir að hafna í 51.-56. sæti á mótinu um helgina eða um það bil eina milljón króna.
„Forskot styðja við bakið á mér og ég er mjög þakklátur fyrir það en peningarnir fara fljótt ef maður stendur sig ekki.“
Guðmundur fer nú til Indlands og spilar á Hero Indian Open og þá reiknar hann með því að komast inn á Magical Kenya Open í mars.
„Svo kemur líklega langt hlé,“ segir hann en mörg sterk mót eru fram undan á Evrópumótaröðinni meðal annars Dell holukeppnin á PGA-mótaröðinni og sjálft Masters-mótið, fyrsta risamót ársins.