Á meðal efstu manna á Indlandi

Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék vel í dag.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék vel í dag. Ljósmynd/Kristján Ágústsson

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék vel á fyrsta hring Hero Indian Open-mótsins í Nýju-Delí í dag. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð álfunnar.

Guðmundur lék fyrsta hringinn í dag á 68 höggum, fjórum höggum undir pari. Er hann í fjórða sæti, ásamt heimamönnunum Shubhankar Sharma og Angad Cheema, þremur höggum á eftir Þjóðverjanum Yannik Paul sem er efstur.

Guðmundur fékk sex fugla, tvo skolla og tíu pör á holunum átján. Mun hann auðveldlega komast í gegnum niðurskurðinn fyrir tvo síðustu hringina með svipaðri frammistöðu á öðrum hring á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert