Guðmundur Ágúst Kristjánsson lauk leik fyrir skömmu á þriðja hring á Hero Indian Open á Evrópumótaröðinni.
Eftir sterka byrjun fataðist honum aðeins flugið en hann lék hringinn á 77 höggum eða fimm höggum yfir pari DLF-vallarins í Nýju-Delí og er í 28.-36. sæti fyrir lokahringinn á morgun á pari samtals á loknum þremur hringjum.
Hér er hægt að fylgjast með skorinu á Hero Indian Open
Guðmundur var fyrir hringinn í morgun meðal efstu manna en Þjóðverjinn Yannick Paul hafði öruggt fimm högga forskot á Guðmund og fleiri.
Paul tapaði tveimur höggum á fyrstu þremur holunum. Á sama tíma fékk Guðmundur fugl á fyrstu holunni og var skyndilega aðeins tevimur höggum á eftir efsta manni.
Fjórir skollar á fimm holum um miðbik hringsins gerðu honum erfitt fyrir og tveir skollar fylgdu svo til viðbótar nokkrum holum síðar.
Guðmundur kom til baka með fugli á 15. holu en fékk tvöfaldan skolla í kjölfarið áður en hann klóraði í bakkann á lokaholunni með góðum fugli.
Guðmundur hefur látið hafa eftir sér að völlurinn sé mjög snúinn og flatirnar eru mjög harðar og hraðar.
Fjórði hringur hefst í nótt og á Guðmundur Ágúst teig um klukkan fjögur á íslenskum tíma í nótt.