Guðmundur Ágúst Kristjánsson hafnaði í 48.-53. sæti á Hero Indian Open á Evrópumótaröðinni í golfi. Mótinu á DLF-vellinum í Nýju-Delí er rétt ólokið en aðeins efstu kylfingarnir eiga eftir að ljúka leik.
Guðmundur lék fyrsta hringinn á 68 höggum eða á fjórum höggum undir pari og sat í 4.-6. sæti að honum loknum, þremur höggum á eftir Þjóðverjanum Yannik Paul sem var efstur.
Hann lék annan hringinn á einu höggi undir pari og var því á samtals fimm höggum undir pari að loknum tveimur hringjum og í 2.-5. sæti, fimm höggum á eftir Paul.
Yannick Paul tapaði tveimur höggum á fyrstu þremur holunum en á sama tíma fékk Guðmundur fugl á fyrstu holunni og var skyndilega aðeins tevimur höggum á eftir efsta manni. Guðmundi fataðist flugið eftir það og kom í hús á fimm höggum yfir pari og var þá samtals á pari DLF-vallarins og í 28.-36. sæti fyrir lokahringinn.
Lokahringinn lék hann á sex höggum yfir pari og lauk leik á samtals sex höggum yfir pari í 48.-53. sæti.
Þetta var áttunda mót Guðmundar á Evrópumótaröðinni síðan hann tryggði sér keppnisrétt á þessa sterkustu mótaröð Evrópu í haust. Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á þremur síðustu mótum Evrópumótaraðarinnar en það hefur engum Íslendingi tekist áður.
Það verður sannarlega gaman að fylgjast með Guðmundi Ágústi á næstu mótum en leiðin liggur næst til Kenía í mars.