Haraldur Franklín Magnús úr GR er efstur eftir fyrsta hringinn á móti á Nordic Golf League mótaröðinni sem hófst á Catalunya-golfsvæðinu skammt frá Girona á Spáni í gær.
Haraldur átti frábæran hring í gær og lék hann á 66 höggum, sex undir pari vallarins, og er sem stendur á átta höggum undir pari í fyrsta sætinu þegar annar hringur er nýhafinn. Hann er tveimur höggum á undan næstu mönnum.
Andri Þór Björnsson, GR, Axel Bóasson, GK, Elvar Kristinsson, GR, Hákon Örn Magnússon, GR, og Arnór Tjörvi Þórsson, GR, eru einnig á meðal keppenda en þeir eru allir sem stendur fyrir neðan niðurskurðarlínuna sem nú miðast við að leika á pari vallarins.
Keppendur á mótinu eru 138 en mótaröðin er sú þriðja sterkasta af atvinnumótaröðunum í Evrópu. Um þriggja daga mót er að ræða og lokahringurinn verður því leikinn á morgun.