Haraldur deilir toppsætinu fyrir lokahringinn

Haraldur Franklín Magnús er í góðri stöðu á Spáni.
Haraldur Franklín Magnús er í góðri stöðu á Spáni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Franklín Magnús atvinnukylfingur er áfram í forystuhlutverki á Spanish Masters mótinu í Girona á Spáni en það er hluti af Nordic Golf mótaröðinni.

Haraldur deildi efsta sætinu með Patrick Foley frá Sviss eftir fyrsta hringinn í gær þar sem hann lék á 66 höggum.

Hann hefur nú lokið öðrum hring og lék hann á 69 höggum, og er samtals á átta höggum undir pari vallarins eftir tvo hringi.

Jafn Haraldi eftir hringina tvo er Matias Honkala frá Finnlandi sem lék á 66 höggum í dag en um þriggja daga mót er að ræða og lokahringurinn er því leikinn á morgun.

Haraldur og Honkala eru tveimur höggum á undan næstu þremur kylfingum sem eru Patrick Foley, Sebastian Wiis frá Danmörku og Albin Tidén frá Svíþjóð.

Fimm aðrir íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu og er þeir allir úr leik en enginn þeirra náði að komast í gegnum niðurskurðinn í dag. Axel Bóasson endaði í 86. sæti, Hákon Örn Magnússon í 95. sæti, Arnór Tjörvi Þórsson í 99. sæti og þeir Elvar Kristinsson og Andri Björnsson deildu 110. sæti af þeim 138 kylfingum sem hófu mótið. Aðeins 46 efstu leika lokahringinn á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert