Sex atvinnukylfingar styrktir í ár

Ragn­hild­ur Krist­ins­dótt­ir er ný í hópi þeirra sem fá afreksstyrkkina.
Ragn­hild­ur Krist­ins­dótt­ir er ný í hópi þeirra sem fá afreksstyrkkina. mbl.is/Óttar Geirsson

Sex atvinnukylfingar fá úthlutað styrkjum frá afrekssjóðnum Forskoti á þessu ári en sjóðurinn hefur stutt fjárhagslega við bakið á íslenskum afrekskylfingum frá árinu 2012.

Frá þessu er greint á golf.is og þar kemur fram að þeir sex sem fái styrkina í ár séu Axel Bóasson, Bjarki Pétursson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Haraldur Franklín Magnús og Ragnhildur Kristinsdóttir.

Ragnhildur og Bjarki bætast við í hópinn frá síðasta ári en Aron Snær Júlíusson dettur út af listanum. Bjarki naut áður styrkjanna árin 2020 og 2021 en Ragnhildur er í hópnum í fyrsta skipti. Guðmundur Ágúst hefur verið lengst samfellt í hópnum, þetta er hans sjöunda ár í röð, en Axel hefur verið í hópnum frá árinu 2013, að undanskildum tveimur árum.

Að sjóðnum standa sex íslensk fyrirtæki í samvinnu við Golfsamband Íslands og fram kemur að frá stofnun sjóðsins hafi markmiðið verið að gera styrkþegum auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi í golfíþróttinni.

Atvinnukylfingarnir sex sem fá styrkina í ár.
Atvinnukylfingarnir sex sem fá styrkina í ár. Ljósmynd/golf.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert