Haraldur Franklín Magnús atvinnukylfingur náði sér ekki á strik á lokahringnum á Spanish Masters-golfmótinu í Girona á Spáni í dag og varð að sætta sig við áttunda sætið eftir að hafa verið með forystuna stóran hluta mótsins.
Haraldur lék fyrstu tvo hringina á 66 og 69 höggum og var á átta höggum undir pari vallarins þegar lokahringurinn hófst í morgun.
Þar tapaði Haraldur þremur höggum á þriðju og fjórðu holu og lauk að lokum hringnum í dag á fimm höggum yfir pari vallarins, eða á 76 höggum.
Fyrir vikið lék hann samtals á þremur höggum undir pari og deilir áttunda sæti með sjö öðrum keppendum.
Joakim Wikström frá Svíþjóð og Sebastian Wiis frá Danmörku enduðu jafnir og efstir á sjö höggum undir pari, fjórum höggum á undan Haraldi, og léku bráðabana um sigurinn á mótinu þar sem Wikström hafði betur.
Mótið er liður í Nordic Golf League mótaröðinni, þriðju sterkustu mótaröð í Evrópu.