Guðrún Brá Björgvinsdóttir komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Girona-mótinu í golfi á LET Access-mótaröðinni, þeirri næststerkustu í Evrópu.
Fyrrverandi Íslandsmeistarinn var á meðal efstu kylfinga eftir fyrsta hring í gær, sem hún lék á 71 höggi. Hún átti hins vegar öllu verri dag í dag og lék á 78 höggum. Er hún á samanlagt sjö höggum yfir pari og í 25. sæti.
Ragnhildur Kristinsdóttir lék fyrri hringinn í gær á 73 höggum og annan hringinn í dag á 79 höggum. Lauk hún því leik á tíu höggum yfir pari og var einu höggi frá því að fara í gegnum niðurskurðinn.
Emma Thorngren frá Svíþjóð og Elena Moosmann frá Sviss eru efstar á fjórum höggum undir pari.
Aðeins þrír hringir eru leiknir á mótinu og fer þriðji og síðasti hringurinn fram á morgun.