Frábær skor á Masters

Jon Rahm og Justin Thomas þakka fyrir hringinn í kvöld …
Jon Rahm og Justin Thomas þakka fyrir hringinn í kvöld en Thomas lék á 70 höggum. AFP/Kinnaird

Þrír kunnir kylfingar eru efstir á frábæru skori eftir fyrsta keppnisdaginn á Masters-mótinu á Augusta National vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum en mótið er fyrsta risamót ársins í golfi hjá körlunum. 

Augusta National var óvenju auðveldur viðureignar. Aðallega vegna þess að flatirnar voru mýkri en þær eru yfirleitt í apríl og því ekki eins erfiðar. Auk þess var veðrið ákjósanlegt en miðað við veðurspána á veðrið eftir að versna mjög næstu daga. 

Norðmaðurinn Viktor Hovland fór út snemma og skilaði inn frábæru skori á 65 höggum. Nánast allt gekk upp hjá Hovland í dag en hann hefur ekki unnið risamót á ferlinum. Spánverjinn Jon Rahm og Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka léku einnig á 65 höggum eða á sjö undir pari en þeir hafa hvorugir unnið Masters. Rahm fékk skramba þegar hann fjórpúttaði á fyrstu holunni en hristaði það glæsilega af sér og fékk níu fugla eftir það. Koepka hefur vann fjórum sinnum á risamótunum 2017-2019 en minna hefur farið fyrir honum eftir það meðal annars vegna meiðsla. Hann átti þó mjög góða möguleika á sigri á Masters þegar Tiger Woods vann 2019. 

Brooks Koepka sýndi úr hverju hann er gerður.
Brooks Koepka sýndi úr hverju hann er gerður. AFP/Redington

Cameron Young frá Bandaríkjunum og Jason Day frá Ástralíu eru á fimm undir pari. Bandaríkjamaðurinn Scottie Scheffler sem vann Masters í fyrra lék á fjórum undir pari þrátt fyrir að pútta illa og virðist því eiga nokkuð inni. Scheffler er efstur á heimslistanum. Landar hans Xander Schauffele, Sam Burns, Gary Woodland og áhugamaðurinn Sam Bennett léku einnig á 68 höggum og slík hið sama gerðu Írinn Shane Lowry og Ástralinn Adam Scott sem sigraði á Masters 2013. 

Viðbrögð Scottie Scheffler þegar pútt fyrir erni rúllaði nánast yfir …
Viðbrögð Scottie Scheffler þegar pútt fyrir erni rúllaði nánast yfir holuna á 13. flöt. Ekki er útlit fyrir annað en að hann muni berjast um sigurinn á sunnudaginn en þarf þá að pútta betur. AFP/Petersen

Rory McIlroy vantar sigur á Masters til að ná slemmunni á ferlinum og hefur því unnið hin þrjú risamótin. Síðustu árin hefur hann byrjað illa á Masters og leikið á 73-76 höggum á fyrsta degi og gert sér erfitt fyrir. Það breyttist lítið í dag því McIlroy þurfti að hafa mjög fyrir hlutunum og lék á 72 höggum eða á parinu. Hann þurfti að berjast fyrir því og var á tveimur yfir pari eftir 7 holur. 

Skor hjá nokkrum þekktum kylfingum: 

69: Justin Rose, Collin Morikawa, Tony Finau, Jordan Spieth
70: Justin Thomas, Cameron Smith, Matthew Fitzpatrick
71: Patrick Reed, Patrick Cantlay, Sungjae Im, Hideki Matsuyama, Phil Mickelson, Dustin Johnson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert