Tiger Woods þarf að leika betur

Tiger Woods á hringnum í dag.
Tiger Woods á hringnum í dag. AFP/Redington

Tiger Woods þarf að leika betur á öðrum keppnisdegi á Masters-mótinu í golfi í Georgíu í Bandaríkjunum á morgun. 

Tiger lék á 74 höggum og er á tveimur yfir pari. Vanalega væri það ekki mikið vandamál á fyrsta degi á Masters en Augusta National völlurinn var hins vegar mýkri og auðveldari í dag en vanalega. Fyrir vikið þarf Tiger að bæta sig á morgun til að komast í gegnum niðurskurðinn sem verður líklega í kringum parið og mögulega undir pari. 

Tiger er jafn fleirum í 54. sæti en hann keppir í fáum mótum núorðið eftir að hafa slasast mjög illa á fæti í bílslysi fyrir tveimur árum. 

Annar vinsæll fyrrverandi meistari, Fred Couples, stóð sig frábærlega í dag. Couples sem sjaldan hefur misst af niðurskurðinum á Masters lék á 71 höggi og er því undir pari. Couples er 64 ára gamall og sigraði á mótinu árið 1992. Hefur hann leikið á Masters frá árinu 1983 og komst í gegnum niðurskurðinn fyrstu tuttugu og tvö skiptin. Couples kann því að spila völlinn og hefði unnið mótið oftar ef bakmeiðsli hefðu ekki litað ferilinn. Áhorfendur á Augusta munu fagna mjög ef hann kemst í gegnum niðurskurðinn á þessum aldri.  

Fred Couples getur enn spilað undir pari á Augusta.
Fred Couples getur enn spilað undir pari á Augusta. AFP/Smith
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert