Tré féllu þegar veðurguðirnir byrstu sig á Augusta

Eitthvað hefur gengið á Augusta National fyrst heilu trén féllu.
Eitthvað hefur gengið á Augusta National fyrst heilu trén féllu. AFP/Kinnaird

Ekki gekk að ljúka leik á öðrum keppnisdegi á Masters-mótinu í golfi í kvöld þegar hryssingslegt veður reið yfir Augusta National völlinn í Georgíuríki í Bandaríkjunum. 

Veðurguðirnir byrstu sig töluvert og féllu þrjú tré nærri 17. teig og 16. flöt. Leik hafði áður verið hætt vegna eldingahættu en fljótlega fóru leikmenn aftur út á völl. Þá voru færri áhorfendur á staðnum og þykir mildi að enginn skyldi slasast. Fljótlega eftir atvikið var leik frestað á ný og verður haldið áfram á morgun. 

Meðlimur í Augusta klúbbnum kannar aðstæður.
Meðlimur í Augusta klúbbnum kannar aðstæður. AFP/Smith

Þar af leiðandi liggur ekki fyrir fyrr en á morgun hverjir komast í gegnum niðurskuðrinn. Tiger Woods er í baráttunni á tveimur yfir pari samtals en Rory McIlroy næstefsti kylfingur heimslistans er úr leik á samtals fimm yfir pari. 

Tiger Woods barðist vel í rokinu og var á parinu eftir ellefu holur. Þegar leik var frestað haltraði hann hins vegar í klúbbhúsið og á greinilega erfitt með gang á Augusta en völlurinn er erfiður á fótinn með alls kyns hólum og hæðum. Þess ber einnig að geta að gamla kempan Fred Couples er kominn langleiðina með að komast áfram og er samtals á pari eftir 17 holur. Couples nýtur mikilla vinsælda í Bandaríkjunum en er á 64. aldursári. 

Tiger Woods kíkir til veðurs í kvöld.
Tiger Woods kíkir til veðurs í kvöld. AFP/Smith

Spánverjinn Jon Rahm er samtals á níu undir pari og lék fyrri níu holurnar í dag á þremur undir pari. Eins og sakir standa er langlíklegast að hann og Brooks Koepka berjist um sigurinn en Koepka er efstur á 12 undir pari en hann lék við góðar aðstæður í dag áður en veðrið versnaði. 

Spánverjinn Jon Rahm hefur leikið geysilega vel á fyrstu 27 …
Spánverjinn Jon Rahm hefur leikið geysilega vel á fyrstu 27 holunum. AFP/Kinnaird
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert