Illa gengur að klára keppnishringi á Masters-mótinu í golfi á réttum tíma vegna veðurs, en um fyrsta risamót ársins er að ræða.
Ekki tókst að klára þriðja hringinn í gær vegna úrhellisrigninga, en annar hringurinn var einnig stöðvaður í gær vegna veðurs.
Verður þriðji hringurinn kláraður á morgun, áður en fjórði og síðasti hringurinn verður leikinn. Mótið fer fram á Augusta National-vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum.
Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka er í góðum málum í efsta sæti á 13 höggum undir pari. Hann er fjórum höggum á undan Spánverjanum Jon Rahm. Tiger Woods er neðstur af þeim 54 kylfingum sem komust í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi, á samtals níu höggum yfir pari.