Spænskur sigur á fæðingardegi Seve

Jon Rahm fagnar sigri í kvöld.
Jon Rahm fagnar sigri í kvöld. AFP/Petersen

Spánverjinn Jon Rahm sigraði á Masters mótinu í golfi í kvöld, fyrsta risamóti ársins í karlaflokki. 

Ástarævintýri Spánverja og Masters mótsins heldur því áfram en Rahm er fjórði Spánverjinn sem vinnur mótið. Á undan honum gengu Seve Ballesteros, Jose Maria Olazabal og Sergio Garcia en svo skemmtilega vill til að í dag er fæðingadagur Ballesteros sem lést árið 2011. Auk þess eru fjörtíu ár síðan Seve Ballesteros vann Masters í síðara skiptið en hann sigraði 1980 og 1983. 

Seve Ballesteros er án efa einn þekktasti íþróttamaður sem komið …
Seve Ballesteros er án efa einn þekktasti íþróttamaður sem komið hefur frá Spáni. Ljósmynd/PGA

Rahm lék samtals á 12 undir pari en hann lék hringina á 65,69, 73 og 69 höggum. Rahm vann öruggan sigur en næstir komu Brooks Koepka og Phil Mickelson á samtals 8 undir pari.  

Sigurvegarinn í fyrra Scottie Scheffler klæðir Jon Rahm í græna …
Sigurvegarinn í fyrra Scottie Scheffler klæðir Jon Rahm í græna jakkann í kvöld. AFP/ ROSS KINNAIRD

Fyrir lokahringinn var Koepka með forystuna. Hann var þá á 11 undir pari en Rahm tveimur höggum á eftir. Rahm lék af miklu öryggi á lokadeginum en Koepka var kaldur og missti Spánverjann fljótt fram úr sér. 

Jon Rahm sigraði á risamóti í annað sinn en hann vann Opna bandaríska meistaramótið árði 2021 en Rahm er 28 ára gamall og var í þriðja sæti heimslistans fyrir Masters. 

Phil Mickelson sem verður 53 ára í júní sýndi úr hverju hann er gerður og lék á 65 höggum í dag og kom sér þar með upp í 2.-3. sæti í mótinu. Mickelson hefur þrívegis sigrað á Masters á ferlinum og er sá elsti til að vinna risamót en hann vann PGA meistaramótið 2021. 

Næstu menn: 

-7 Jordan Spieth, Patrick Reed, Russell Henley.

-6 Cameron Young, Viktor Hovland.

-5 Sahith Theegala.

-4 Scottie Scheffler, Matt Fitzpatrick, Xander Schauffele, Collin Morikawa.

-3 Gary Woodland, Patrick Cantlay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert