Sigurður Arnar Garðarsson, atvinnukylfingur úr GKG, setti nýtt vallarmet á Sand Valley-golfvellinum í Póllandi þegar hann lék þar annan hringinn á Sand Valley Polish Masters-mótinu sem lauk í gær.
Sigurður lék hringinn á 65 höggum, sjö höggum undir pari vallarins, og bætti vallarmetið um eitt högg.
Mótið er liður í Nordic Golf League-atvinnumótaröðinni, þeirri þriðju sterkustu í Evrópu.
Níu íslenskir kylfingar tóku þátt í mótinu og Axel Bóasson úr GK náði bestum árangri, þriðja sætinu, á samtals tíu höggum undir pari.
Andri Þór Björnsson varð ellefti á sex höggum undir pari og Sigurður Arnar endaði í sautjánda sæti á fimm höggum undir pari, samtals. Bjarki Pétursson endaði í 40. sæti og lék á pari en aðrir Íslendingar komust ekki í gegnum niðurskurðinn.