Allir bestu kylfingar heims mættir á PGA meistaramótið

Rory McIlroy reynir að vinna sitt fyrsta risamót frá árinu …
Rory McIlroy reynir að vinna sitt fyrsta risamót frá árinu 2014 um helgina. AFP/Andy Lyons

Allir bestu kylfingar heims eru mættir á PGA meistaramótið í golfi sem hefst í dag á Oak Hill vellinum í Rochester, New York, Bandaríkjunum.

PGA meistaramótið er annað risamót ársins en þau eru fjögur talsins. Auk PGA meistaramótsins, þá eru það Masters mótið, Opna bandaríska mótið og Opna breska mótið.

Það má með sanni segja að Oak Hills völlurinn verði miðpunktur golfheimsins um helgina því 99 af topp 100 golfurum heimsins munu taka þátt í mótinu. Það eru þó nokkrir sem geta ekki verið með og ber þar hæst Tiger Woods sem er að jafna sig eftir aðgerð á ökkla sem hann fór í á dögunum. Þá verður Will Zalatoris, sem endaði í 2. sæti á þessu móti í fyrra, ekki heldur með en hann fór í bakaðgerð í mars og mun missa af restinni af golftímabilinu.

Jon Rahm er efstur á heimslistanum fyrir helgina.
Jon Rahm er efstur á heimslistanum fyrir helgina. AFP/Andrew Redington

Það er mikil spenna fyrir mótinu og sjá margir fyrir sér einvígi á milli mannanna sem skipa 1. og 2. sætið á heimslistanum, Spánverjans Jon Rahm og Bandaríkjamannsins Scottie Scheffler. Ekki væri þó sniðugt að útiloka Norður-Írann Rory McIlroy en hann hefur unnið fjögur stórmót á ferlinum og er æstur í að bæta fimmta sigrinum við ferilskránna.

Justin Thomas hefur titil að verja.
Justin Thomas hefur titil að verja. AFP/Gregory Shamus

Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas verður einnig að teljast líklegur en hann vann þetta mót í fyrra og er í 13. sæti heimslistans. Ástralinn Jason Day vann síðasta mót fyrir PGA meistaramótið þegar hann vann AT&T Byron Nelson meistaramótið um síðustu helgi, það var fyrsti sigur Day í 5 ár á PGA mótaröðinni og verður hann að teljast líklegur til afreka um helgina einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert