Koepka fyrstur fyrir lokahringinn

Brooks Koepka spilaði vel í gær og leiðir fyrir lokahringinn …
Brooks Koepka spilaði vel í gær og leiðir fyrir lokahringinn á PGA meistaramótinu. AFP/Ross Kinnaird

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka leiðir PGA meistaramótið í golfi sem fer fram þessa dagana á Oak Hill vellinum í Richmond, New York í Bandaríkjunum.

Koepka er efstur fyrir lokahringinn sem spilaður verður í dag en Koepka hefur spilað hringina þrjá á 6 höggum undir pari. Norðmaðurinn Viktor Hovland og Kanadamaðurinn Corey Conners koma næstir á eftir en þeir eru á 5 höggum undir pari.

Bryson DeChambeau er á 3 undir pari og Justin Rose og Scottie Scheffler koma næstir á 2 höggum undir pari. Þá er Rory McIlroy í 7. sæti á 1 höggi undir pari.

Aðeins þessir sjö hafa náð að spila fyrstu þrjá hringina samanlagt á undir pari en aðstæður hafa verið mjög erfiðar í New York. Mikil rigning og rok hefur herjað á keppendur mótsins og völlurinn verið mjög erfiður að spila.

Brooks Koepka hefur unnið PGA meistaramótið tvisvar sinnum, árin 2018 og 2019, og reynir hann að vinna þetta risamót í þriðja skiptið.

Sá sem stendur uppi sem sigurvegari eftir helgina mun eiga fyrir salti í grautinn næstu vikurnar en vinningsféið hefur aldrei verið hærra á mótinu. Sigurvegarinn mun fá 3,15 milljón dollara sem jafngildir rúmum 442 milljónum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert