Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka fagnaði sigri á PGA-meistaramótinu í golfi sem lauk á Oak Hill-vellinum í Rochester í Bandaríkjunum í gærkvöld.
Koepka, sem er 33 ára gamall, lék hringina fjóra á samtals 271 höggi eða níu höggum undir pari vallarins.
Scottie Scheffler frá Bandaríkjunum og Viktor Hovland frá Noregi höfnuðu í 2.-3. sæti á samtals sjö höggum undir pari.
Þetta var fimmti sigur Koepka á risamóti í golfi en einungis 20 kylfingar hafa afrekað það í gegnum tíðina.
Bandaríkjamaðurinn Jack Nicklaus trónir á toppi listans með 18 sigra á risamótum og Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods er annar með 15 sigra.