Það er gömul saga og ný í íþróttum að þeir sem eiga mestan pening fá jafnan sínu framgengt. Ekki er þess að vænta að nokkur breyting verði þar á í nánustu framtíð og virðist útlitið raunar vera að dökkna.
Fjárfestingafyrirtækið Public Investment Fund, PIF, sem er fjármagnað af ríkissjóði Sádi-Arabíu, hefur farið mikinn að undanförnu í íþróttatengdum fjárfestingum.
Fyrir átti fyrirtækið meðal annars enska knattspyrnufélagið Newcastle United og LIV-mótaröðina í golfi. Í vikunni hefur það svo fest kaup á PGA- og Evrópumótaröðunum í golfi og keypt fjögur stærstu knattspyrnufélög Sádi-Arabíu.
Þetta er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, sérstaklega hvað golfið varðar, þar sem forsvarsmenn PGA-mótaraðarinnar og fjöldi kylfinga sem eru hluti af henni hafa undanfarið ár séð rautt þegar LIV berst í tal.
Fjöldi kylfinga í fremstu röð hafði nefnilega þekkst boð um að taka þátt í mótum á vegum LIV, gegn greiðslu svimandi hárra upphæða. Var þeim þá öllum meinað að taka frekari þátt í mótum á vegum PGA.
Bakvörð Gunnars má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.