Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK, varð að gera sér annað sætið að góðu á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu sem fram fór á Samsö-golfvellinum í Danmörku.
Axel var efstur að loknum tveimur hringjum af þremur í gær og var með tveggja högga forskot þegar níu holur voru eftir af þriðja og síðasta hring í dag.
Daninn Sebastian Wiis náði hins vegar að jafna metin á síðustu holunum og voru Axel og Wiis því jafnir í efstu tveimur sætunum að loknum þremur hringjum, báðir á 17 höggum undir pari.
Því þurfti bráðabana til þess að knýja fram sigurvegara, þar sem Wiis hafði betur.
Mótið er hluti af Nordic Golf League atvinnumótaröðinni, sem er þriðja sterkasta mótaröð Evrópu í karlaflokki.
Á Thomas Björn Samsö Classic-mótinu tóku tveir Íslendingar til viðbótar þátt, Bjarki Pétursson úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR.
Bjarki varð jafn í tíunda sæti er hann lék níu höggum undir pari og Andri Þór hafnaði í 29. sæti á þremur höggum undir pari.