Bandaríkjamaðurinn Wyndham Clark tileinkaði látinni móður sinni sigurinn á opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem lauk í Kaliforníu í nótt.
Clark vann sitt stærsta mót á ferlinum í nótt og var aðeins einu höggi á undan norðurírsku goðsögninni Rory Mcllroy.
Í viðtali við SkySports eftir sigur Clarks tileinkaði hann strax móður sinni Lise titilinn á mótinu, en hún lést úr brjóstakrabbameini árið 2013, þá 54 ára gömul.
Áður en hún féll frá sagði Lise við son sinn að hann ætti alltaf að „leika stórt“, þula sem að kylfingurinn hefur fest við sig síðan.
„Mér leið eins og að mamma væri að horfa yfir mér. Hún er ekki hér, ég sakna þín mamma!
Ég hef séð þetta svo lengi fyrir mér, að vera fyrir framan ykkur og vinna þennan meistaratitil. Métr finnst bara eins og þetta hafi verið minn tími,“ sagði Clark um tilfinninguna.
Clark bætti síðar við „Mamma kallaði mig sigurvegara þegar ég var lítill. Hún sagði alltaf við mig „ég elska þig sigurvegari,“ þannig hún vildi alltaf að ég myndi spila stórt.
Ég veit að mamma er stolt af mér. Hún hefur alltaf verið það, sama hvernig mér gengur eða hvað ég er að gera.
Það eina sem ég virkilega vildi væri að mamma gæti verið hér með mér og að ég gæti bara knúsað hana og fagnað með henni. Hún var svo jákvæð og veitti manni svo mikla hvatningu. Hún myndi gráta gleðitárum,“ sagði tilfinningaþungur Clark.