Pamela Ósk Hjaltadóttir, 15 ára kylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar, gerði sér lítið fyrir og náði albatross er hún var við leik á Hlíðavelli í Mosfellsbæ um liðna helgi.
Kylfingur greinir frá því að Pamela Ósk hafi náð áfanganum á 13. braut vallarins, sem er par 5 braut.
Boltinn endaði í holunni á tveimur höggum, þremur undir pari, og kom kylfingurinn ungi sér þannig í hóp fárra sem hafa afrekað það að ná albatross, eða tvöföldum erni, hér á landi.