Ekki með keppnisrétt í fyrsta skipti í aldarfjórðung

Sergio Garcia á Opna bandaríska meistaramótinu í júní.
Sergio Garcia á Opna bandaríska meistaramótinu í júní. AFP/ Sean Haffey

Spænski kylfingurinn Sergio Garcia þarf að sætta sig við að vera á meðal áhorfenda þegar The Open Championship fer fram á Royal Liverpool-vellinum síðar í mánuðinum. 

Hefur það ekki gerst síðan 1998 og hefur Garcia því verið með keppnisrétt á mótinu í tuttugu og þrjú skipti í röð en The Open er eitt elsta íþróttamót heimsins sem enn er við lýði. Er það eitt risamótanna fjögurra á ári hverju í golfinu. 

Garcia er einn þeirra kylfinga sem völdu að fara á LIV-mótaröðina en mótin á þeirri mótaröð telja ekki til heimslistans. Fyrir vikið er staða Garcia mun verri á heimslistanum en jafnan áður á ferlinum og er hann því ekki með keppnisrétt á The Open. 

Mótið er hins vegar opið og er því hægt að keppa um örfá laus sæti í úrtökumótum. Garcia lék vel á lokaúrtökumótinu í vikunni og lék tvo hringi á 6 höggum undir pari á West Lancashire-vellinum en það dugði ekki til. 

Haraldur Franklín Magnús á Carnoustie vellinum í Skotlandi árið 2018. …
Haraldur Franklín Magnús á Carnoustie vellinum í Skotlandi árið 2018. Þá keppti hann á The Open og er eini Íslendingurinn sem komist hefur inn á risamót karla í golfi. Ljósmynd/Páll Ketilsson

Á seinni úrtökumótunum voru leiknar 36 holur á fjórum stöðum samtímis og voru 4-5 sæti í boði á hverjum velli. Garcia var þremur höggum frá því að komast á The Open en þess má geta að Haraldur Franklín Magnús var einnig þremur höggum frá því að komast inn en hann lék á Royal Porthcawl-vellinum. Nokkrir kunnir kylfingar komust inn í gegnum úrtökumótin og má þar nefna Matt Wallace, Thomas Detry, Branden Grace og Charl Schwartzel sem sigraði á Masters árið 2011. 

Sergio Garcia er 43 ára gamall og hefur oft barist um sigurinn á The Open. Hefur hann tvívegis hafnað í 2. sæti og fjórum sinnum verið á meðal fimm efstu. Síðast þegar mótið fór fram á Royal Liverpool árið 2014 hafnaði hann í 2. sæti ásamt Rickie Fowler en Rory McIlroy sigraði. Hefði Garcia tekist að sigra á mótinu þá þyrfti hann ekki að hafa áhyggjur af keppnisréttinum. Garcia hefur einu sinni sigrað á risamóti en hann vann Masters árið 2017. 

Charl Schwartzel í græna jakkanum eftir sigurinn á Masters 2011. …
Charl Schwartzel í græna jakkanum eftir sigurinn á Masters 2011. Hann verður með á The Open en Schwartzel er einn þeirra sem fóru á LIV mótaröðina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert