Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy hefur ákveðið að hætta sem fulltrúi kylfinga í stjórn PGA-mótaraðarinnar.
Jay Monahan, framkvæmdastjóri mótaraðarinnar, tilkynnti kylfingum hennar um ákvörðun McIlroys og þakkaði Norður-Íranum fyrir sýnda hollustu og skuldbindingu gagnvart PGA-mótaröðinni.
McIlroy hafði ítrekað gagnrýnt hina umdeildu LIV-mótaröð opinberlega áður en PGA-mótaröðin, Evrópumótaröðin og LIV-mótaröðin skrifuðu undir samstarfssamning í júní síðastliðnum.
Sagði hann í kjölfarið að honum liði eins og fórnarlambi þar sem mótaraðirnar komust að samkomulaginu án þess að ráðfæra sig við kylfinga PGA-mótaraðarinnar.
Ekki liggur ljóst fyrir að svo stöddu hvernig mótafyrirkomulagi verður háttað þegar allar ofangreindar mótaraðir eru komnar í eina sæng.