Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús lauk rétt í þessu þriðja hringnum á ástralska PGA-meistaramótinu í golfi í Brisbane í Ástralíu.
Hann lék hringinn á 70 höggum, einu undir pari vallarins, og er þessa stundina í 57. -68. sæti á samtals einu höggi undir pari eftir þrjá hringi.
Hann lék tvo fyrstu hringina á pari og var í hópi þeirra 80 sem komust í gegnum niðurskurðinn og voru þá í 64.-80. sæti.
Haraldur hefur því klifrað aðeins upp töfluna en staðan er ekki marktæk ennþá því hann var með fyrstu mönnum sem ræstir voru út eldsnemma að morgni í Brisbane og þar er klukkan að nálgast 11 að morgni þegar hún er enn aðeins að verða eitt að nóttu á Íslandi. Flestir keppenda á mótinu eiga því eftir að ljúka þriðja hring.
Þetta er fyrsta mótið keppnistímabilsins sem tilheyrir Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð í Evrópu, en Haraldur hefur áunnið sér takmarkaðan keppnisrétt þar.
Uppfært:
Haraldur er í 61.-69. sæti eftir þriðja hringinn á einu höggi undir pari af þeim 80 sem komust í gegnum niðurskurðinn. Min Woo Lee frá Ástralíu er fyrstur á 17 höggum undir pari, Rikuya Hoshino frá Japan annar á 14 undir pari og þriðji er Curtis Luck frá Ástralíu á 13 undir pari.
Haraldur leggur af stað á lokahringinn klukkan 21 í kvöld, laugardagskvöld, en þá er klukkan 7 á sunnudagsmorgni í Brisbane.